Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 711  —  1. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Hvert er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að stefna? Stendur íslenskt samfélag betur en fyrir fimm árum síðan? Við sem viljum stjórna í þágu almennings viljum sjá framfarir. Í staðinn verðum við vitni að stjórnun sem festir kerfin okkar enn frekar í hjólförunum. Stjórnun sem felur fyrst og fremst í sér að neyð er sköpuð til þess eins að geta hlaupið inn líkt og bjargvættur rétt fyrir jól til að stoppa í götin. Svona á ekki að stjórna landi. Með þessum stjórnarháttum komumst við einfaldlega ekkert áfram. Þetta á við um stöðu öryrkja og eldri borgara, stöðu heilbrigðiskerfis og öldrunarþjónustunnar og löggæsluna víða um land svo dæmi séu tekin.
    Því miður er þetta niðurstaðan þegar ríkisstjórn er mynduð um stöðugleika flokkabandalags, í staðinn fyrir stöðugleika og framfarir í þágu almennings. Eitt er að gera málamiðlanir. Annað er þegar ríkisstjórn er stýrt af flokki með fimmtungsfylgi á bak við sig, af stjórnmálastefnu sem minni hluti þjóðar styður. Ef við lítum á flokksflóruna á Íslandi mætti í ákveðinni einfeldni segja að 30% þjóðar styðji hægri stefnu í efnahagsmálum og velferðarmálum og 70% þjóðar liggi frá miðju og til vinstri. Það er meiri hluti fyrir umbótum í velferðarkerfinu, fyrir sanngjarnri skattheimtu. Þetta má sjá bæði af því hvernig atkvæði skiptast flokkanna á milli, en einnig af samtölum við fólk út um allt land. Ægivald stærsta stjórnmálaflokks landsins, sem hefur þó upplifað umfangsmikið fylgistap, heldur stjórn landsins í andstæðu við vilja meiri hluta þjóðar. Þessari stöðu vill Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands breyta. Samfylkingin vill fylkja fólki á bak við breiðu velferðarlínurnar sem samstaða er um meðal þjóðar, þar sem stór hluti landsmanna liggur. Slíka forystu vantar tilfinnanlega í núverandi ríkisstjórn. Til þess þarf að losa um neitunarvaldið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu – neitunarvaldið sem hefur meðal annars áhrif á allt verklagið í frumvarpinu sem hér er til umræðu.
    Stærsta einstaka mál ríkisstjórnar hvers þingvetrar, fjárlagafrumvarpið, var enn óskrifað blað þar til fyrir nokkrum dögum síðan. Þrátt fyrir að lög um opinber fjármál séu mjög skýr um að fjárlagafrumvarpið sem birtist þingi og þjóð í 1. umræðu eru endanlegar pólitískar áherslur og tillögur ríkisstjórnarinnar. Síðan tekur Alþingi við og leggur fram breytingartillögur. Málið fær þinglega meðferð. Nú er svo komið í þessari ríkisstjórn að ákvörðunarfælnin og reiptogið milli stjórnarflokkanna er orðið svo mikið að stórir hlutar frumvarpsins fóru ókláraðir inn í þingið. Og þau skilaboð bárust fjárlaganefnd, þingi og þjóð, að ríkisstjórnin – fjármálaráðuneytið – myndi bæta við eftir eigin hentisemi þegar liði á haustið.
    Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu hljóða upp á 50 milljarða kr. Og þær eru fyrst og fremst fengnar frá fjármálaráðuneyti og ríkisstjórn, ekki mótaðar af þinginu. Ríkisstjórnarræðið, eða fjármálaráðherraræðið öllu heldur, er að verða algjört.
    Þetta er mjög taktísk afgreiðsla hjá ríkisstjórninni. Í fyrsta lagi gagnvart minni hlutanum, að mæta með óklárað skjal og geta þá vitnað ítrekað til þess að meira sé á leiðinni – óvíst sé í raun hvað. Allri gagnrýni meðan á rýniferli fjárlaganefndar og þings stendur er því svarað með: „Bíðið bara, við munum bregðast við. Peningurinn er í óskilgreindum almennum varasjóði – þetta er þarna allt saman.“ Ríkisstjórnin getur einfaldlega ekki komið sér saman um úthlutun, um grundvallarforgangsröðun, um stefnu.
    Þá hefur umrætt vinnulag ríkisstjórnarinnar svipuð áhrif á hagsmunaaðila sem skila umsögnum um frumvarpið. Umsagnaraðilar eru í raun að bregðast við ókláraðri vinnu. Ríkisstjórnin grípur því ítrekað til þess ráðs að kæfa þá gagnrýni einnig, á þeim nótum að hún hafi nú ekki sagt sitt síðasta.
    En það versta við þetta vinnulag er að þetta er ódýr afgreiðsla gagnvart íslenskum almenningi. Því þetta stjórnareðli er til þess fallið að halda fólki sífellt á tánum, eða í raun á hnjánum, gagnvart örlæti ríkisstjórnarinnar. Pólitískar aðgerðir og stefna ríkisstjórnar er hætt að snúast um langtímasýn sem mótuð er og fullfjármögnuð í fjármálaáætlun – áætlun sem á að veita von um úrlausn á stórum samfélagslegum vandamálum, í almannatryggingum, húsnæðismálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum o.s.frv. Nú snýst þetta um að skapa sem mesta neyð með ókláruðu og óskrifuðu fjárlagafrumvarpi; fá heilbrigðisstofnanir, öryrkja og nú síðast löggæsluna og fangelsin í landinu í örvæntingu fram, og mæta svo með jólagjöf við 2. umræðu.
    60 þús. kr. eingreiðsla fyrir tekjulægsta fólkið í landinu því örorkukerfið er brotið. 12 milljarða kr. viðbótarfjárframlag til heilbrigðismála sem kemur í veg fyrir stórfelldan niðurskurð á grunnrekstri en stillt er upp sem stórsókn. 1 milljarður kr. til að koma í veg fyrir uppsagnir í lögreglunni eftir allt sem á undan er gengið. Allt er þetta neyð sköpuð af sama fólkinu og mætir nú í fjölmiðla með gjafagjörning.
    Stefnuleysið er algjört. Og pólitíkin snýst nú orðið aðeins um einhver hrossakaup rétt fyrir hátíðirnar. Ekki nema von að við komumst ekkert áfram. Að kerfislægur vöxtur í stóru velferðarkerfunum okkar haldi áfram að vinda upp á sig. Að kulnun aukist sem og vonleysið. Fólk á nú að vera þakklátt fyrir örlæti ríkisstjórnar rétt fyrir jól. Öllu hefur verið snúið á hvolf. Stjórnarmálin eiga að snúast um að þjónusta almenning. En sambandið milli þings og þjóðar, ríkisstjórnar og þjóðar, breyst í örvæntingarfullt samtal um neyðarfjármögnun hverju sinni. Tímabundinn léttir – og hvað svo?

Velferðarkerfið okkar þarf uppfærslu sem krefst langtímasýnar.
    Núverandi stjórnarfar hefur orðið til þess að almenningur er orðinn hálfdofinn fyrir stjórnmálum okkar tíma. Fólk upplifir að það skipti engu hvað er kosið. Og er hætt að kippa sér upp við svikin loforð. Þau skilaboð sem berast frá stjórnarliðum um að verið sé að vinna í stóru málaflokkunum okkar, að raunverulegar breytingar hafi átt sér stað, eða jafnvel að ekkert sé í ákveðnum hlutum að gera, eru hættuleg. Þau skapa þá tilfinningu meðal fólksins í landinu að við sem samfélag getum einfaldlega ekki leyst samfélagsleg verkefni í sameiningu. Með þessu er alið á uppgjöf. Alið á einstaklingshyggjunni, að allir eigi bara að sjá um sig sjálfir. Markmiðið verður að grafa undan tekjustofnum ríkissjóðs, lækka skatta svo fólk geti greitt sig sjálft út úr vandanum, keypt sig fram fyrir röðina.
    Hér er ekki um ýkjur að ræða. Á síðasta kjörtímabili réðst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur í skattabreytingar sem lækkuðu tekjur ríkissjóðs um 42 milljarða kr. ár hvert. Um er að ræða 42 milljarða kr. sem ekki nýtast í uppbyggingu og styrkingu á velferðarkerfunum. Fjármagn sem var greitt út, ekki innheimt. Og undir þetta kvittar félagshyggjuflokkur, sem fylgir nú forgangsröðun hægri flokks um að veikja grunnþjónustuna, ýta undir einstaklingshyggjuna. Ríkisstjórnin virðist ekki átta sig á því að þegar velferðarkerfið okkar var byggt upp á sjöunda áratug síðustu aldar þá var megintilgangurinn að tryggja aðgang að grunngæðum samfélagsins með aðkomu opinberrar þjónustu. Grunnþjónusta skyldi veitt óháð efnahag – þú áttir ekki að geta keypt þig fram fyrir kerfið. Í svona kerfi þá bætir ríkisstjórn ekki stöðuna í velferðarkerfinu með því að veikja tekjugrunn kerfanna með skattalækkun, því hver og einn einstaklingur á ekki að geta keypt sig inn í það.
    Lífskjör fólks í velferðarríki ráðast af svo miklu fleiri hlutum en launatekjum eftir skatt. Þau ráðast af kostnaði við grunnþjónustu, húsnæði, gæðum opinberrar þjónustu og eftir atvikum réttindum fólks til bóta. Með því að veikja þennan grunn lífskjara hefur ríkisstjórnin kynt undir ónægju á vinnumarkaði og ólgu. Traustið til stjórnmálanna hefur dvínað það mikið að verkalýðshreyfingin og almennir launþegar reyna sitt best að sækja sem mest af lífskjarabatanum í launakröfur til atvinnurekenda því velferðargrunnurinn er orðinn of veikur til að styðja við framfarir í lífskjörum að öðru leyti. Þessi staða er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

Heilbrigðiskerfið.
    Haustið hófst á alvarlegri umræðu um stöðu heilbrigðismála, þar sem fjöldauppsagnir áttu sér stað í heilbrigðiskerfinu vegna álags, þvert á heilbrigðisstéttir. Inn í þetta landslag mætti ríkisstjórnin með fjárlagafrumvarp sem fól í sér að raunvexti Landspítalans var ekki mætt -þ.e. nauðsynlegri fjárveitingu til þess eins að halda í horfinu út frá fólksfjölgun og öldrun þjóðar. Lyfjakostnaði var ekki mætt. Og Landspítalinn boðaði niðurskurð að öðru óbreyttu. Sjúkrahúsið á Akureyri lýsti því yfir að rekstrargrunnur spítalans væri brostinn ef ekki bærist 500 millj. kr. viðbótarframlag. Og heilbrigðisstofnanir út um allt land lýstu því yfir að launakostnaði undanfarinna ára – sem ríkið ber sjálft ábyrgð á vegna eigin kjarasamninga - hefði ekki verið mætt að undanförnu og því stefndi í niðurskurð.
    Ofan í þessa umræðu mætir heilbrigðisráðherra, í takt við fjármálaráðherra sem er æðsti maður ríkisstjórnarinnar, og lýsir því yfir að fjármögnun sé ekki vandi heilbrigðiskerfisins. Vonleysið sem heilbrigðisstarfsfólk lýsir sé ekki til staðar. Og gefur lítið fyrir tölfræði um að fjárframlög til íslenska heilbrigðiskerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu séu mun minni en í nágrannalöndum okkar – þrátt fyrir að við séum færri og rekum þar með óhagkvæmari einingar. Á þessa gagnrýni er einfaldlega lokað.
    Við bættust umsagnir frá Sjúkraliðafélaginu og hjúkrunarheimilum um vanfjármögnun í þjónustu sem styður við heilbrigðiskerfið – öldrunarþjónustunni. Slæm kjör fagstétta sem starfa á hjúkrunarheimilum hafa orðið til þess að um 85% af þeim sem starfa á slíkum heimilum hafa ekki tilskilda fagmenntun. Fjármagn er ekki til staðar til að borga fyrir menntað starfsfólk. Og þar sem fjármagnið er til staðar lætur fólk ekki bjóða sér þau kjör sem bjóðast vegna álags.
    Skortur á fjármagni og yfirsýn á þessum stað í keðjunni, í öldrunarþjónustu, hefur orðið til þess að legurýmum fjölgar ekki sem skyldi fyrir utan spítalana og háskólasjúkrahúsið okkar er rekið að hluta til sem hjúkrunarheimili. 110 manns liggja nú á Landspítalanum sem ættu að vera á hjúkrunarheimili, full nýting er á legurýmum, sem hamlar aðgerðum á spítalanum. Þessi staða heldur aftur af afköstum á spítalanum, sem stefnir nú afkastatengdri fjármögnun spítalans í hættu. Og ýtir enn frekar undir ósanngjarna orðræðu gagnvart starfsfólki spítalans um að framleiðni þess sé ekki nægjanleg. Þegar staðreyndin er sú að stjórnvöld halda aftur af möguleikum fólks til að sinna starfi sínu eftir bestu getu. Það kemst einfaldlega ekki í verkefnin sem það er þjálfað fyrir vegna kerfislægra vandamála stjórnvalda.
    Í kjölfarið eykst óánægja fólks í starfi og álag. Fólk leitar yfir til einkarekinna stofa, þar sem bráðaþjónusta og legurými er ekki partur af starfslýsingunni. Vítahringur hefst þar sem flótti af opinberum heilbrigðisstofnunum þýðir að starfsfólk sem þarf að sinna bráðaþjónustu á opinberum sjúkrahúsum fækkar – um leið dregur úr þjónustu sem ekki er veitt neins staðar annars staðar. Gripið er til álagsgreiðslna, vaktaálags, aukafrís, eingreiðslna – allt gert til að halda í fólk. Á sama tíma hafa heilbrigðisstofnanir fyrir utan höfuðborgarsvæðið ekki fjárhagslegt svigrúm til slíkra greiðslna, sem svo sogar starfsfólk af landsbyggðunum í bæinn og veikir því þjónustuna. Veikari þjónusta í landsbyggðunum leiðir svo til þess að fólki er vísað á höfuðborgarsvæðið og álagshringurinn þrengist. Yfirsýn stjórnvalda virðist engin.
Vítahringurinn verður ekki rofinn með jólagjafagreiðslum heilbrigðisráðherra við 2. umræðu – þar sem mætt er með fjármagn sem hefði átt að koma strax inn í fjárlagafrumvarpið í haust. Fjármagn sem kemur í veg fyrir stórfelldan niðurskurð, færir okkur ekkert áfram. Fólkið sem starfar í heilbrigðis- og öldrunargeiranum á meira og betra skilið en að láta spila svona með sig.
    Nýlegt dæmi um stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og skort á yfirsýn í heilbrigðismálum er samningsleysi sjúkraþjálfara og sérfræðilækna í landinu. Komugjöld og greiðslur fyrir aðgerðir hafa hækkað umtalsvert og fellur sá kostnaður nú beint á einstaklinga sem þurfa á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og þjálfun að halda. Öryrkjabandalagið hefur bent á að hingað til hafi almenningur greitt nærri 2 milljarða kr. úr eigin vasa vegna þessa samningsleysis, og blasir nú við að kostnaður almennings verði enn meiri á næstu misserum vegna áframhaldandi kostnaðarhækkana og samningsleysis. Eðli málsins samkvæmt fellur þessi kostnaður langþyngst á viðkvæmustu hópana í okkar samfélagi. Tvöfalt heilbrigðiskerfi hefur því myndast á vakt ríkisstjórnarinnar.

Réttaröryggi.
    Sömu sögu er að segja um réttaröryggið í landinu, þar sem dómsmálaráðuneytið mætti til fjárlaganefndar strax eftir framlagningu fjárlagafrumvarpsins í haust og benti á alvarlega vanfjármögnun sem til staðar væri. Ljóst væri að að öðru óbreyttu stefndi í uppsagnir um áramótin í löggæslunni, sem væri nú þegar undirmönnuð. Til viðbótar væri hættuleg staða komin upp í fangelsum landsins, þar sem ekki væri lengur hægt að tryggja öryggi fanga, fangavarða né réttindi sem fangar ættu lögum samkvæmt. Loka þyrfti opnum fangelsum og biðlisti í afplánun myndi lengjast enn frekar. Fjöldi mála myndi fyrnast vegna þessa.
    Þetta vissi ríkisstjórnin strax í haust. Þetta vissi ríkisstjórnin í vor þegar fjármálaáætlun var gerð. En beðið er með að bæta við fjármagni þar til neyðarópin í fjölmiðlum eru orðin svo hávær að góður gluggi skapast fyrir ríkisstjórnina til að mæta með breytingar við eigið fjárlagafrumvarp. Inn í kerfi sem hún hefur borið ábyrgð á í 5 ár – og í raun lengur því leiðandi flokkur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hefur verið ráðandi bæði í dómsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu í áratugi.

Almannatryggingar.
    Þá má nefna hvernig ríkisstjórnin hefur spilað með tilfinningar fátækasta fólksins í landinu á síðustu vikum. Enn eitt árið í röð þarf að grípa til þess ráðs að biðla til stjórnvalda um eingreiðslu fyrir jólin, því staðan meðal öryrkja er orðin svo erfið að metfjöldi leitar nú til hjálparstofnana og umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda. Ríkisstjórnin slær um sig í fjárlögum með því að benda á að hún sé að hækka bætur almannatrygginga til öryrkja og eldri borgara sem nemur verðlagshækkun. Þrátt fyrir að hún viti mæta vel að það á hún lögum samkvæmt að gera – í því felst engin pólitísk ákvörðun. 69. gr. almannatryggingalaga kveður á um að umræddar greiðslur eiga að fylgja verðlagi eða launum í landinu, hvort heldur sem hærra er. Greiðslurnar hafa rétt svo fylgt verðlagi, en eru langt undir lægstu launum í landinu. Og nú er það svo að stór hluti öryrkja fær lægri greiðslur en sem nemur atvinnuleysisbótum.
    Nýjasta útspilið er svo breytingartillaga ríkisstjórnar í tengslum við 2. umræðu, sem ríkisstjórnin treysti sér ekki í við framlagningu frumvarpsins strax í haust, hvað þá í fjármálaáætlun, né að samþykkja síðustu 8 ár þar sem tillagan hefur verið lögð fram: að hækka frítekjumark öryrkja upp í 200 þús. kr. Frítekjumarkið hefur staðið óhreyft í að verða áratug. Félagsmálaráðherra greiddi atkvæði gegn tillögunni í fyrra þegar Samfylkingin og fleiri flokkar í minni hlutanum stóðu fyrir tillögunni. Vissulega ber að fagna því að eitthvað hreyfist í þessum málaflokki. En að mati 1. minni hluta er þessi afgreiðsla ekki boðleg. Fátækasta fólkinu í landinu er haldið í heljargreipum fram á síðustu stundu. Eins og svo víða er neyð sköpuð, til að geta hlaupið inn og bjargað málunum fyrir horn.
    Hrossakaupapólitík á ekki og má ekki endurspegla stjórnunina í landinu. Við komumst ekkert áfram með þessu verklagi. Við sitjum bara föst.

Aðhald til einskis.
    Til marks um stefnuleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru hinar almennu aðhaldskröfur sem settar eru af fjármálaráðuneytinu. Engin stefna liggur þar að baki né greining á því hverju það aðhald skilar. Hefur þetta orðið til þess að flest ráðuneytin hafa gripið til þess ráðs að mæta aðhaldinu með frestun á viðhaldi og niðurfellingu verkefna. Aðhaldið skilar því ekki aukinni framleiðni eða getu í stjórnsýslunni – frestar aðeins verkefnum og í mörgum tilvikum, þar sem viðhaldi og fjárfestingu er frestað, eykur kostnaðinn síðar meir.
    Gott dæmi um þetta er tvöföld aðhaldskrafa sem skellt var á flesta málaflokka í þessu fjárlagafrumvarpi til að mæta þenslunni í samfélaginu. Í tilviki lögreglunnar þýðir þetta 2% aðhaldskrafa á grunnþjónustu þar sem launakostnaður er um 80% af kostnaði. Sífelld krafa um flatt aðhald ár hvert þrengir þannig stöðugt getu löggæslunnar til mannaráðninga. Viðbótarframlag ríkisstjórnarinnar til löggæslunnar sem kom nú inn í 2. umræðu upp á 900 millj. kr. mætir því 400 millj. kr. aðhaldi strax á næsta ári. Og eftir örfá ár verður búið að éta þetta fjárframlag upp. Lögregluembætti veigra sér því við því að ráða í stöður, því þau vita að fjármagnið er bara tímabundið. Fyrirsjáanleikinn er enginn. Hverju skilar þetta aðhald öðru en minni skilvirkni og skertri þjónustu í grunninnviðum?
    Þrátt fyrir að ríkið sé ekki rekið líkt og fyrirtæki er það þekkt fyrirbæri úr rekstri að það þarf að fjárfesta í framþróun og aðhaldi. Það þarf stefnu og sýn um hvernig má hagræða í rekstri, sem felur oftar en ekki í sér upphafsfjárfestingu. Í breyttum heimi þýðir þetta oftar en ekki nýtingu tækni og breytt verklag. En ef fjármagn er ekki veitt í slíka uppstokkun og fjárfestingu í breyttum innviðum þá verður aðhaldið marklaust. Fjárhagsramminn er svo þröngur hjá stjórnvöldum, því öll áherslan er á útgjaldahliðina í stað þess að styrkja tekjuhliðina, að engin þolinmæði er til staðar, ekkert úthald, til að ráðast í langtímabreytingar sem gætu kostað til að byrja með en sparað okkur milljarða síðar meir. Og í millitíðinni brennur fólkið okkar út.
    Svipaðan tón má merkja frá heilbrigðisstofnunum. Stafvæða þarf heilbrigðiskerfið en fjármagn í slíka vegferð er af afar skornum skammti. Ríkisstjórnin hefur fengið upp í hendurnar fjöldann allan af skýrslum frá virtum ráðgjafafyrirtækjum sem benda á tækifærin sem gæti falist í slíkri stafvæðingu, og eins með breyttri skipan legurýma í landinu með aukinni fjárfestingu. En umrædd ráðgjafafyrirtæki segja líka satt: slík hagræðing birtist ekki fyrr en árið 2040, ef ráðist yrði af stað í slíka vegferð núna. Hún birtist ekki innan árs.
    Ríkisstjórnin hefur hvorki kjark né þor til að segja fólkinu í landinu að það muni kosta okkur í nokkur ár að færa landið upp á hærri og betri grunn. Að það þarf viðbótarfjármagn til að koma okkur upp úr þeim vítahring sem myndast hefur víða. Enda kallar það á pólitíska forgangsröðun, umræðu um tekjur ríkissjóðs. Og það kallar á sýn og alvöru ákvarðanatöku.

Stjórnað í þágu fárra ekki almennings.
    En skortur á langtímasýn er ekki það eina sem einkennir þetta fjárlagafrumvarp, eða almenna stjórnun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þegar á reynir til skamms tíma kemur sannarlega í ljós í þágu hverra ríkisstjórnin starfar. Við göngum nú í gegnum háverðbólgutímabil – sem reynir á þanþol hagstjórnar, reynir á forgangsröðun. Ríkisstjórnin mætti til leiks í vor, með endurskipulagða fjármálaáætlun fyrir næsta ár, til að mæta erfiðu verðbólguumhverfi. Í þessu tilviki var sýnin skýr, því þær aðhaldsaðgerðir sem boðaðar voru í vor héldu velli inn í fjárlagafrumvarpið. Þarna gaf ríkisstjórnin sig ekki. Aðgerðirnar fólu í grófum dráttum í sér að fjárfestingu var frestað, enn einu sinni. Og ráðist var í almennar skattahækkanir í formi flatra hækkana á krónutölugjöldum.
    Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er að hækka skatta. En á hverja hækkar hún skatta? Almenning í landinu. Á hverjum bitna þessar skattahækkanir harðast? Lægstlaunaða fólkinu í landinu sem greiðir jafnhá krónutölugjöld og hátekju- og eignafólkið í landinu. Og litlu og meðalstóru fyrirtækin greiða sömu krónutölugjöld og stórfyrirtækin. Ríkisstjórnin leitar beint í vasa almennings, í stað þess að grípa til aðgerða til að fjármagna aðhaldsaðgerðir þar sem svigrúmið raunverulega er til staðar.
    Við komum út úr árabili þar sem methækkun var á fjármagnstekjum í landinu, en í fyrra jukust þær um 52%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna efstu tekjutíundarinnar jókst tvöfalt á við annarra tíunda. Mikil þensla hefur verið á eignamörkuðum, bæði húsnæðis- og verðbréfamörkuðum. Þessi þensla er að miklu leyti afleiðing af aðgerðum stjórnvalda sem kyntu undir bólumyndun á eignamörkuðum á tímum heimsfaraldurs, með því að ráðast seint og með of almennum hætti í aðgerðir í stað þess að beina fjármagninu strax til þeirra sem á því þurftu að halda. Á sama tíma hafa útflutningsgreinar, sér í lagi sjávarútvegurinn, hagnast vegna breyttra viðskiptakjara í tengslum við stríðið í Úkraínu. Þannig hefur verð á ferskum fiski í Evrópu til að mynda hækkað mikið og stutt við verðmæti sjávarafurða sem og tekjur og hagnaður Landsvirkjunar vegna hækkunar á álverði. Á sama tíma hefur hluti heimilanna í landinu liðið fyrir erlenda verðbólgu vegna stríðsins. Ólíkt arðsemi Landsvirkjunar, sem rennur óskipt til ríkissjóðs og þar með til þjóðarinnar, á hið sama ekki við arðsemi í sjávarútvegi, sér í lagi í stórútgerðinni sem býr við allt aðrar aðstæður en minni fyrirtæki í atvinnugreininni um land allt.
    Enginn vilji hefur verið innan ríkisstjórnarinnar til að hrófla við gjaldtöku á þeim sviðum samfélagsins sem hafa hagnast á ástandinu á meðan hluti almennings líður skort. Dempunin sem á að vera innbyggð í okkar samfélag í svona aðstæðum virkar ekki ef stjórnvöld trúa ekki á endurdreifingu. Fylgiflokkar forystuflokksins í ríkisstjórn hafa tekið upp hægri trúna um að núverandi uppsetning mála sé af náttúrunnar hendi – svona dreifast tekjurnar og arðurinn einfaldlega út frá frjálsum markaði sem hefur ekkert með ramma sem settur er af stjórnmálamönnum að gera. En hér er ekkert til sem heitir frjáls markaður sem fellur af himnum ofan. Þetta er allt saman skapað af opinberu regluverki, sem á að endurspegla vilja samfélagsins og fólksins í landinu. Og núverandi staða endurspeglar ekki þjóðarvilja. Hér gerist ekkert í tómarúmi, stjórnmálin eru alls staðar. Það er ekki hægt að skila auðu í svona verkefnum.
    Pólitísk forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr – fram hjá henni verður ekki litið. Skattahækkanir á hinn almenna borgara og minni fyrirtækin. Öðrum hlíft. Þrátt fyrir fulla meðvitund um hvar þenslan í samfélaginu er til staðar.
    Þessi pólitík hugnast ekki okkur jafnaðarfólki. Þess vegna má finna í okkar breytingartillögum aðgerðir sem snúa við almennri gjaldahækkun ríkisstjórnarinnar. Aðhaldinu er frekar mætt með hækkun á þeim tekjustofnum þar sem svigrúmið hefur svo sannarlega myndast; í fjármagnstekjum, hjá stórútgerð og hjá fjármálastofnunum.

Stórsóknin horfin í húsnæðismálum.
    Stór rót verðbólgunnar, sem stjórnvöld bera ábyrgð á og reyna nú að berjast við, er staðan á húsnæðismarkaði. Almennar aðgerðir í heimsfaraldri kyntu vissulega undir eignaverðshækkunum. En skortur á húsnæði á viðráðanlegum kjörum og tregða stjórnvalda til að styrkja félagslegar forsendur húsnæðismarkaðarins er stór ástæða mikilla íbúðaverðshækkana. Í nágrannalöndum okkar er húsnæði sem er rekið á óhagnaðardrifnum forsendum hátt í fimmtungur af markaðnum. Hér á landi er talan nær 5%. Úrræðaleysi hefur verið til staðar í húsnæðismálum hér á landi allt frá því að verkamannabústaðakerfið var lagt niður um aldamótin, og farin sú leið að hvetja fólk til stórtækrar skuldsetningar í gegnum Íbúðalánasjóð – sem síðar fór í samkeppni við bankana með hörmulegum afleiðingum – í stað þess að standa undir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Þessi stefna hefur orðið til þess að við erum sífellt að elta skottið á okkur – ekkert akkeri er á íbúðamarkaði sem heldur aftur af verðhækkunum. Lausnin er bara sífellt meira lánsfjármagn, sem þrýstir verðinu ofar og ofar. Skammtímalausnir berast frá stjórnarliðum um að kippa húsnæðisliðnum út úr verðbólgunni, til að hún mælist ekki jafnhá, þegar ljóst er að aðeins er um mælikvarða að ræða: slík aðgerð lagar ekki grundvallarvandann sem er síhækkandi verð á heimilum fólks.
    Hvernig bregst ríkisstjórnin við þessu ástandi á húsnæðismarkaði? Jú, innviðaráðherra boðaði stórátak í uppbyggingu húsnæðis í vor. Glærukynningar og blaðamannafundir um sama efni voru haldnir víða, þar sem boðuð var uppbygging á 4.000 íbúðum á ári næstu árin. Þar af yrði þriðjungur með óhagnaðardrifnu formi sem ríkisstjórnin ætlaði að fjármagna til móts við sveitarfélögin.
    Þessar áherslur hafa verið stærsta einstaka áherslumál Framsóknarflokksins síðustu misserin. Sama flokks og ber ábyrgð á núverandi stöðu á íbúðamarkaði; flokksins sem lagði niður verkamannabústaðakerfið, kom á fót Íbúðalánasjóði og breytti fjármögnun sjóðsins með eftirminnilegum hætti sem skildi eftir sig hundruð milljarða skuldir sem falla nú á ríkissjóð. Sama flokks og lofaði ítrekaði í vor að fjármagn væri á leiðinni fyrir húsnæðisuppbyggingu eftir að ljóst var í fjármálaáætlun í vor að niðurskurður blasti við í framlögum til uppbyggingar félagslegs húsnæðis þvert á glærukynningar sama vorið. Sama flokks og sama ráðherra sem mætti í fjölda viðtala í haust og hélt ræður á Alþingi um að þó að peningurinn í húsnæðisuppbygginguna hefði ekki birst í fjárlagafrumvarpinu í haust þá væri hann á leiðinni. Enn einn jólagjafaglaðningurinn sem átt að grípa til í byrjun desember. Sem birtist svo aldrei. Það eru engin ný framlög inn í húsnæðiskerfið á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, engin ný framlög við 2. umræðu. Stórsóknin er engin.

Þau geta bara ekki byggt – enn einn vítahringurinn.
    Hvernig stendur á því að þrátt fyrir að ein helsta gagnrýni á efnahagsaðgerðir um heim allan eftir síðustu kreppu sneri að vanfjárfestingu, að stjórnvöld grípa við fyrsta tækifæri til niðurskurðar í fjárfestingu þegar kreppir að á ný? Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ákvað að skera niður um 10 milljarða kr. á næsta ári í opinberri fjárfestingu í nafni aðhalds. Og innviðaráðherra ber nú fyrir sig að ástæðan fyrir því að meira fjármagn í uppbyggingu húsnæðis finnst ekki í fjárlagafrumvarpinu – sem var grundvöllur stórátaks í húsnæðismálum til að vinna á verðbólgu og bæta kjör fólks til lengri tíma – sé að það sé einfaldlega ekki hægt að byggja á tímum sem þessum. Þá birtist okkur fyrr í haust endurskoðaður ríkisreikningur fyrir síðasta ár sem sýnir að 100 milljarðar kr. af þeirri fjárveitingu sem Alþingi samþykkti til að ráðast í fjárfestingaátak eftir heimsfaraldur hafa ekki verið nýttir. Ríkisstjórnin getur ekki komið fjármagninu í vinnu.
    Sveiflur í innviðauppbyggingu og opinberri fjárfestingu hér á landi hafa veikt getu kerfisins gríðarlega. Innviðauppbygging þarf að vera stöðug, óháð hagsveiflu, með hana má ekki hringla. Þetta stefnuleysi í innviðauppbyggingu hefur dregið úr getu hagkerfisins til að sinna nauðsynlegri uppbyggingu í þágu þjóðar. Hver ber ábyrgð á getuleysi kerfisins til að byggja þegar þörf er á? Er eðlilegt að þau sem halda um stjórnartaumana beri einfaldlega fyrir sig að þau geti ekki byggt? Hverjir bera ábyrgð á umgjörð samfélagsins hér á landi?

Stjórnað í þágu almennings, með skýrri stefnu: breytingartillögur.
    Sú plástrapólitík sem einkennir ríkisstjórnarsamstarfið gengur ekki til lengdar. Verklagið er lýsandi dæmi um það hvernig ríkisstjórnin starfar; til skamms tíma og á síðustu stundu. Með brostinn tekjugrunn sem grefur undan fjármögnun velferðarþjónustunnar, kjarkleysi í uppfærslu á velferðarkerfunum okkar og innistæðulausri vilyrðapólitík finnur ríkisstjórnin sig í endalausu kapphlaupi um hver áramót að stoppa í götin. Augljóst er af stjórnun síðasta áratugar að við völd hefur verið ríkisstjórn sem kann ekki á velferðarkerfin okkar, skilur þau ekki og þekkir ekki. Jafnaðarfólk barðist fyrir velferðarkerfinu og veit að uppfæra þarf það í takt við tímann.

Langtímaverkefnið í augum jafnaðarfólks.
    Ljóst er að staðan í heilbrigðis- og öldrunarmálum og í almannatryggingakerfinu, sem og þegar kemur að innviðauppbyggingu sem styður við atvinnu og kjör, verður ekki leyst með tilfallandi breytingartillögum við gerð fjárlaga hverju sinni. Ef langtímasýn hvað varðar betri kjör heilbrigðis- og umönnunarstétta, sem eru að langmestu leyti í höndum hins opinbera, væri til staðar og endurspeglaðist í fjármálaáætlun og í fjárlögum í kjölfarið væri ríkisstjórn ekki að leggja til skammtímaaðgerðir rétt fyrir jól við 2. umræðu. Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands mun halda áfram að tala fyrir úrræðum sem lyfta velferðarkerfinu okkar upp á hærra plan og sanngjörnum tekjuaðgerðum sem standa undir grunnþjónustu.
    Slíkar breytingar, sem þurfa að eiga sér stað með heildræna sýn að leiðarljósi, þvert á öldrunar- og heilbrigðisþjónustu, krefjast viðurkenningar á því að þessi hluti velferðarkerfisins er í grunninn vanfjármagnaður. Þetta sýnir samanburður við nágrannaþjóðir okkar. Sá sparnaður sem sést í íslenska kerfinu bitnar á samfélaginu til langs tíma, því hann elur á auknum kostnaði annars staðar. Kerfislægur vöxtur heldur áfram að vinda upp á sig. Dýr úrræði eru nýtt að óþörfu, mannauður nýtist illa og brennur út, örorka eykst, geðheilsa versnar og flótti verður úr heilbrigðis- og umönnunarstéttum. Við eigum ekki annarra kosta völ en að taka á þessum vanda. Það þarf ríkisstjórn til sem viðurkennir það og hefur kjark til að forgangsraða fjármagni og sækja tekjur til að standa undir grunnþjónustu.
    Þá þarf að stíga stærri skref í málefnum öryrkja og eldri borgara og leiðrétta þann mismun sem hefur skapast á undanförnum árum þar sem kjör öryrkja og sér í lagi tekjulægsta hópsins meðal eldra fólks hafa færst langt frá lágmarkslaunum í landinu. Auðvitað ber því að fagna að frítekjumarki á atvinnutekjur öryrkja hafi loks verið hækkað, en það er að mati 1. minni hluta óskiljanlegt að svo langan tíma hafi tekið að koma umræddri breytingu í gegn, og þá aðeins þegar stórkostleg neyð vegna kjararýrnunar blasir við öryrkjum.

Kjarapakki 1. minni hluta: Dregið úr verðbólgu og almenningur varinn.
    Breytingartillögur sem 1. minni hluti leggur fram eru til þess fallnar að sýna að önnur forgangsröðun er til staðar sem má beita sér fyrir strax um áramótin án mikils flækjustigs. Hér er ekki ætlunin að taka yfir stefnu stjórnvalda, enda langtímasýnin bundin í stjórnarsáttmála, fjármálaáætlun og meðfylgjandi lagasetningu.
    Stóra áskorunin í ríkisfjármálunum og samfélaginu þessi misserin er kjararýrnun heimilanna. Sögulega há verðbólga birtist nú í heimilisbókhaldi almennings, sér í lagi millitekjuhópa og fólks á lægstu tekjunum í landinu. Verðbólguna má rekja til brotins húsnæðismarkaðar og þróunar á alþjóðavísu. Alþingi getur gegnt lykilhlutverki í annars vegar að draga úr slíkri verðbólgu og hins vegar að verja heimilin í landinu fyrir áhrifum hennar. Tillögurnar sem lagðar eru fram af hálfu 1. minni hluta snúa í þetta skiptið að þessum markvissa, en jafnframt víðfeðma vanda.

Stofnframlög og kjarabætur.
    Lagt er til að staðið verði við loforð um viðbótarfjármagn í stofnframlög til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði, til að halda aftur af hækkun húsnæðisverðs. Þetta er lykilþáttur í að hemja verðbólguna í landinu, og dregur að sama skapi úr þrýstingi á laun síðar meir þar sem lægra hlutfall ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnaði skiptir sköpum fyrir heimilin. Hér er því lagt til að 4 milljarðar kr. verði lagðir í stofnframlög til viðbótar við núverandi fjárheimildir.
    Fyrsti minni hluti er hins vegar meðvitaður um að slík uppbygging tekur tíma jafnvel þótt auknar fjárheimildir verði til uppbyggingar strax á næsta ári, líkt og stjórnvöld höfðu lofað. Markvisst hefur verið unnið að veikingu vaxtabótakerfisins hér á landi undanfarinn áratug sem þessi ríkisstjórn, og ígildi hennar, hefur verið við völd. Hugmyndin var að beina fjármagninu frekar í uppbyggingu hagkvæms húsnæðis en niðurgreiðslur vaxtagjalda, en við þau loforð hefur ekki verið staðið. Til skamms tíma er því nauðsynlegt að bregðast við aukinni kostnaðarbyrði heimilanna í landinu, sér í lagi lágtekju- og millitekjuheimila með því að styrkja vaxtabótakerfið.
    Fyrsti minni hluti vill vinda ofan af þessari stefnu og leggur til að eignaskerðingarmörk vaxtabótakerfisins verði hækkuð um 50% í það allra minnsta, til jafns við þá hækkun íbúðaverðs sem orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu síðan heimsfaraldur skall á snemma árs 2020. Samkvæmt minnisblaði sem skattaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins vann að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar kostar slík hækkun 700 millj. kr. og renna þessar milljónir að langmestu leyti til 4., 5. og 6. tekjutíundar, þeirra heimila sem hafa fundið mest fyrir vaxtahækkunum undanfarna mánuði. Mest verða áhrifin hjá einhleypu fólki og einstæðum foreldrum sem hafa lágan tekjustofn og verða því ekki fyrir miklum skerðingum vegna tekna en hafa eignastofn sem er nálægt efri mörkum eignaskerðingarinnar. Tekjutíundirnar fyrir neðan eru í ríkara mæli á leigumarkaði og telur 1. minni hluti æskilegt að styðja þær með hærri húsnæðisbótum og bremsu á hækkun leiguverðs eins og gert hefur verið í Danmörku og Skotlandi.
    Í ljósi úrræðaleysis ríkisstjórnarinnar í málefnum leigjenda er mikilvægt að kynntar verði til sögunnar aðgerðir sem hemji leiguverðshækkanir á næstu misserum, en Samfylkingin hefur nú þegar mælt fyrir innleiðingu leigubremsu á yfirstandandi þingi. Í breytingartillögum við það fjárlagafrumvarp sem hér um ræðir leggur 1. minni hluti enn fremur til að húsnæðisbætur verði hækkaðar um 10% til viðbótar við þá hækkun sem ríkisstjórnin lagði til fyrr á árinu. Kostnaður við slíka hækkun er um 1 milljarður kr., sbr. fyrri hækkun bótanna á árinu. Ljóst er að húsnæðisbætur hafa ekki fylgt leiguverðshækkun, en bæturnar stóðu óhreyfðar frá árinu 2017 og fram á mitt þetta ár. Þá hækkaði ríkisstjórnin húsnæðisbætur um 10%, en yfir umrætt tímabil hefur leiguverð hækkað að meðaltali um 35%.
    Að lokum leggur 1. minni hluti til að barnabætur verði hækkaðar til að mæta auknum tilkostnaði fjölskyldufólks vegna almennra kostnaðarverðshækkana í landinu. Ísland er augljós eftirbátur annarra Norðurlanda þegar kemur að greiðslum vegna framfærslu barna. Þrátt fyrir staka eingreiðslu á yfirstandandi ári í formi mótvægisaðgerða stjórnvalda liggur fyrir að barnabætur dragast saman að raunvirði milli áranna 2023 og 2022 eftir að núverandi frumvarp fer í gegn óbreytt. Um stórt kjaramál er að ræða, og ábyrgð stjórnvalda mikil að verja heimilin í landinu fyrir verðbólguástandinu. 1. minni hluti leggur til að 3 milljörðum kr. verði bætt við fjárheimildir til barnabóta, sem er 22% hækkun frá núverandi fjárheimild. Þannig má hækka fjárhæð með hverju barni og viðmiðunarmörk þannig að greiðslurnar nái til fleiri fjölskyldna en þær gera í dag.

Frá almennri skattahækkun yfir í sértæka.
    Ef litið er á kjaramálin út frá tekjuhlið ríkissjóðs er það óskiljanlegt að mati 1. minni hluta að fyrstu viðbrögð við þenslu séu þau að hækka almenna gjaldheimtu í landinu með flötum krónutöluhækkunum. Ríkisstjórnin er að hækka skatta með þessu fjárlagafrumvarpi, en ákveður að vaða í almenning þar sem kjararýrnunin er víða, í stað þess að leita í sjóði sem hafa bólgnað í núverandi ástandi. Það er risastórt kjaramál að halda aftur af flötum skattahækkunum, enda bitnar slík skattheimta hlutfallslega þyngst á tekjulægstu heimilunum í landinu. 1. minni hluti leggur því til að fallið verði frá hækkunum krónutölugjalda umfram verðbólgumarkmið, þ.e. að áfram verði hækkunin 2,5% í stað þeirrar 7,7% hækkunar sem lögð er til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Kostnaðurinn af slíkri breytingu er um 4 milljarðar kr.
    Til að mæta þessari breytingu, til að verja kjör almennings, leggur 1. minni hluti til að ráðist verði í hækkun fjármagnstekjuskatts um 3%, úr 22% í 25%. Í minnisblaði sem minni hlutinn óskaði eftir í efnahags- og viðskiptanefnd frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kom fram að slík hækkun myndi að nær öllu leyti falla á tekjuhæstu 10% þjóðarinnar – sama hópsins og hefur séð tvöfalda kaupmáttaraukningu á við allar aðrar tekjutíundir í landinu. Sú viðbótarkaupmáttaraukning kemur til vegna stóraukinna fjármagnstekna á undanförnum misserum sem er einskorðuð við efstu 10% í landinu. Slík hækkun er talin af ráðuneytinu skila 5 milljörðum kr.

Viðbótarfjármögnun tillagna til að vega á móti verðbólgu.
    Til að mæta þeim úrræðum sem hér hafa verið lögð til til að verja kjör heimilanna í landinu þarf að líta til sértækrar tekjuheimtu til að þrýsta ekki frekar á verðbólguna í landinu. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á húsnæðisverðbólgunni sem þarf að draga úr með aukinni uppbyggingu hagkvæms húsnæðis, og að mati 1. minni hluta leigubremsu, og hins vegar þarf að verja heimilin fyrir húsnæðisverðbólgunni með vaxtabótum, húsnæðisbótum og barnagreiðslum.
    Samhliða þessari kjararýrnun sem þarf að grípa inn í hafa fyrirtæki í útflutningsgreinum, sér í lagi sjávarútvegi, og á það sérstaklega við um stórútgerðina, hagnast á ástandinu í alþjóðabúskapnum. Miklar hækkanir hafa verið á verðmæti sjávarafurða. Þær hækkanir ættu að dempa þær kostnaðarverðshækkanir sem almenningur finnur fyrir en arðsemin sem rekja má til auðlindarentu af sameiginlegri eign þjóðar rennur ekki óskipt til ríkissjóðs – dempunin nær því skammt.
    Að mati 1. minni hluta þarf að fjármagna kjaratillögur í formi stofnframlaga, vaxta-, húsnæðis- og barnabóta með aukaálagi á veiðigjöld stærstu útgerðanna í landinu. Slíkt álag, sem horfa mætti á sem hvalrekaskatt til endurdreifingar um samfélagið, gæti skilað 4 milljörðum kr. Hagdeild Alþýðusambandsins hefur metið auðlindarentuna sem 30–70 milljarða kr. á ári hverju en búist er við því að innheimt veiðigjald verði um 8–9 milljarðar kr. á næsta ári. Gerð var breyting á stofni veiðigjalds á síðasta kjörtímabili sem jók svigrúm til frádráttar frá veiðigjaldsstofninum.
    Þá leggur 1. minni hluti til að fallið verði frá lækkun bankaskatts sem átti sér stað árið 2019. Slík niðurfelling rýrði tekjur ríkissjóðs um 6 milljarða kr. á sínum tíma. Að mati 1. minni hluta þarf að endurheimta umræddar tekjur að miklu leyti, eða 4 milljarða kr. á ársgrundvelli, því ljóst er af þróun síðastliðins árs að þessari kostnaðarlækkun hefur ekki verið skilað áfram til neytenda eins og talað var fyrir. Ekkert hefur verið gert af hálfu stjórnvalda til að styrkja samkeppni á bankamarkaði á undanförnum misserum, sem er forsenda þessa að slíkar skattalækkanir skili sér til neytenda. Bankasala sem fór illa og rýrði trúverðugleika stjórnvalda og fjármálakerfisins í augum almennings hefur ekki hjálpað til. Ekkert hefur breyst í málefnum greiðslumiðlunar þrátt fyrir ítrekaða umfjöllun um mikilvægi þess bæði út frá neytenda- og þjóðaröyggissjónarmiði að komið verði á óhagnaðardrifinni lausn í þeim málum líkt og í nágrannalöndum okkar. Á tímum þar sem kjararýrnun heimila og almennings er veruleg er ekki forsvaranlegt að skilja eftir stóra tekjupósta þar sem fákeppnisrenta er til staðar sökum skorts á samkeppni.
    Í skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa frá 2019 kemur fram að víðtækur misbrestur sé á því að reglur um reiknað endurgjald séu virtar og ætla megi að verulegur hluti atvinnutekna sé ranglega talinn fram sem fjármagnstekjur á Íslandi. Í núgildandi regluverki felist verulegur upplýsingavandi fyrir skattyfirvöld þegar kemur að því að ákvarða aðilum í eigin rekstri eðlileg laun. 1. minni hluti telur ámælisvert að ekki hafi verið brugðist við þessum ábendingum, svo sem með því að skilgreina fjármagnstekjur á grundvelli eigna atvinnurekstursins og viðbúinni ávöxtun líkt og gert er víða á Norðurlöndunum. Hagdeild Alþýðusambands Íslands bendir á það í nýlegri skýrslu, Skattar og ójöfnuður: réttlátara og skilvirkara skattkerfi, að með aðgerðum sem takmarka möguleika til tekjutilflutnings megi auka tekjur hins opinbera um 3–8 milljarða kr. á ári og að sú skattbyrði myndi einvörðungu leggjast á tekjuhæstu 10% skattgreiðenda. Leggur 1. minni hluti til að umræddu gati í skattkerfinu verði lokað, og gerir ráð fyrir tekjuauka af slíkri aðgerð upp á 4 milljarða kr. í breytingartillögum.
    Með þessu móti eru breytingartillögur 1. minni hluta til þess fallnar að draga úr verðþrýstingi í samfélaginu og verja kjör almennings. Um gerlegar tillögur er að ræða sem sýna svart á hvítu að pólitísk forgangsröðun skiptir máli.

Umfjöllun um nokkur málefnasvið.
04 Utanríkismál og 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
    Ísland leggur 0,35% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í samræmi við markmið stjórnvalda. Ljóst er að þörf er á frekari fjármagni í þennan málaflokk en Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt ríki til að leggja 0,7% af vergum þjóðartekjum til málaflokksins. Enn er því langt í land ef ná á slíku markmiði. Ef við höldum okkur þó við markmið Íslands, upp á 0,35% af VÞT, sem í ár samsvarar rúmlega 13 milljörðum kr., er nýting fjármuna hér að hluta gagnrýnisverð. Skelfilegt stríðsástand í Úkraínu hefur kallað á aukin útgjöld til svæðisins. Samkvæmt utanríkisráðuneytinu fer hluti af þeirri viðbótarupphæð sem fer í alþjóðlega þróunarsamvinnu til að viðhalda 0,35% VÞT framlagi til uppbyggingar og mannúðarstarfs í Úkraínu. Þá liggur einnig fyrir að hluti af kostnaði við umsækjendur um vernd, hælisleitendur og flóttamenn fellur undir framlög til þróunarsamvinnu Íslands. Ríkisstjórnin bætti við 1,5 milljörðum kr. í málefnasvið 35 nú við 2. umræðu vegna versnandi mannúðarástands í Úkraínu og ber að fagna því. 1. minni hluti ítrekar þó mikilvægi þess að aðstoð Íslands við Úkraínu taki ekki af sjóðum sem áður fóru í alþjóðlega þróunarsamvinnu enda ljóst að neyðin hefur ekki minnkað víða annars staðar í heiminum á sama tíma. Víða hefur hún einmitt aukist vegna verðhækkana í kjölfar stríðsins í Evrópu. Ísland er ríkt land og á að vera í forystu í alþjóðlegri þróunarsamvinnu á heimsvísu. Stuðningur okkar við Úkraínu á að mati 1. minni hluta að vera til viðbótar við hefðbundin þróunarsamvinnuframlög.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
    Aukinni áherslu stjórnvalda á nýsköpun og þekkingargreinar á undanförnum árum ber að fagna. Í þessum málaflokki má þó sjá afleiðingar af flatri aðhaldskröfu ríkisstjórnarinnar. Málaflokkurinn hljóðar upp á um 30 milljarða kr. og er að uppistöðu sjóðir sem fjármagn er veitt úr til nýsköpunar- og þekkingargreina. Sjálfur reksturinn í málaflokknum sem rúmast innan stjórnsýslunnar er brotabrot af þessari upphæð. Aðhaldskrafan sem lögð er á málaflokkinn veldur því fyrst og fremst að framlag í sjóðina minnkar, í stað þess að ýta undir aukna hagræðingu í stjórnsýslunni.
    Þetta er dæmi um mjög ómarkvissa leið til að hagræða í ríkisrekstri, enda um ekkert annað að ræða en hreinan niðurskurð.
    Það kostar að leita leiða til að hagræða, stundum þarf að fjárfesta í lausnum sem draga úr rekstrarkostnaði til langs tíma og kalla þannig á kostnað til að byrja með. Ef stjórnvöldum er alvara með því að gæta aðhalds í ríkisrekstri þarf að sinna því aðhaldi á skipulegan hátt; fara yfir hvaða verkefni eru til þess fallin að mæta hagræðingu, í stað þess að setja flata aðhaldskröfu á öll svið.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
    Nú hefur komið fram í skýrslu Haraldar Líndals að frá og með árinu í ár vantar 13 milljarða kr. árlega í málaflokk fatlaðs fólks hjá sveitarfélögum til að sinna lögbundnum skyldum á sviðinu. Rekja má vandann til yfirfærslu málaflokksins á sínum tíma frá ríki til sveitarfélaga þar sem gífurlegt vanmat var á kostnað við innleiðingu þjónustu á sviði fatlaðs fólks. Í breytingartillögum sem bárust frá ríkisstjórninni við 2. umræðu var sett inn tilfærsla upp á 5 milljarða kr. til sveitarfélaga til að koma til móts við þessa stöðu. Ljóst er að upphæðin nægir ekki til að mæta þeim kostnaði sem sveitarfélögin hafa tekið á sig eftir yfirfærslu málaflokksins. Mikilvægt er að langtímalausn finnist á þessum fjármögnunarvanda enda ríkur vilji hjá sveitarfélögum að uppfylla kröfur í málaflokki fatlaðs fólks. Sá halli sem er á málaflokknum sýnir svart á hvítu að sveitarfélögin hafa ekki viljað skora sig undan ábyrgð í að tryggja að mannréttindi fatlaðs fólks.
    Fram hefur komið í umsögnum sveitarfélaga að stóran hluta halla stjórnsýslustigsins á landsvísu megi rekja til vanfjármögnunar á málaflokki fatlaðs fólks af hálfu ríkisins. Sveitarfélögin hafa engu að síður lagt mikið á sig til að veita umrædda þjónustu og því þrengt að svigrúmi til annarra útgjalda, til að mynda fjárfestinga. Það er stórt hagsmunamál fyrir sveitarfélögin að þessi skekkja, sem rekja má til vanfjármögnunar málaflokks fatlaðs fólks, verði leiðrétt enda bitnar vanfjármögnunin á málaflokknum sjálfum, rekstri annarra eininga sveitarfélaganna og rekstrarstöðu þeirra almennt.
    Ríkissjóður mun veita 1,1 milljarð kr. til sveitarfélaganna í gegnum Jöfnunarsjóð til að fylgja eftir samþykkt farsældarlaga. 1. minni hluti vill vekja athygli á mikilvægi þess að endurskoðun á kostnaði vegna úrræðisins eigi sér stað til að tryggja að hér fari ekki aftur af stað sama atburðarás og í málaflokki fatlaðs fólks. Á sínum tíma þegar á málaflokkur fatlaðs fólks var fluttur til sveitarfélaga átti að endurmeta kostnaðinn með reglulegu millibili. Því endurmati hefur þó ekki fylgt nægilegt fjármagn. Þá hefur einnig komið fram á fundum nefndarinnar að fjármögnun á tengiliðum milli úrræða, sem farsældarlögin felast fyrst og fremst í, skilar litlu ef grunnúrræðin sjálf eru vanfjármögnuð. Á fundum fjárlaganefndar kom fram að illa hafi gengið að ráða í stöður í þeim velferðarúrræðum sem farsældarlögin eiga að styðja við. Ljóst er að kjara- og aðstöðumál vega þarna þungt, sem í grunninn má rekja til undirliggjandi fjármögnunarvanda.
    Þá kom rík krafa fram hjá landshlutasamtökunum um að aukið fjármagn yrði veitt í atvinnuráðgjöf eftir að Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) var lögð niður. Tómarúm virðist hafa skapast eftir niðurlagninguna sem stjórnvöld hafa ekki komið til móts við. Fram kom í minnisblaði frá háskóla, -iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu til nefndarinnar að af þeirri 660 millj. kr. fjárveitingu sem áður rann til NMÍ hefðu 350 millj. kr. verið fluttar yfir á safnlið annarra sjóða en afgangurinn, eða á bilinu 300–400 millj. kr., væri sparnaður af aðgerðinni.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er samdráttur í fjárveitingu bæði til sóknaráætlana landshlutanna og til atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Þetta skýtur skökku við í ljósi þess hve umfang verkefna landshlutasamtakanna hefur vaxið á undanförnum árum. Í sameiginlegri umsögn frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga á Vesturlandi og Vestfjarðastofu kemur fram að ef framlag til atvinnuráðgjafar er leiðrétt miðað við launavísitölu frá árinu 2009 liggur fyrir að framlagið hefur lækkað úr tæpum 400 millj. kr. í 200 millj. kr., og því helmingast. Þar sem laun eru meginkostnaðarliðurinn hjá landshlutasamtökunum, og áætlaður heildarkostnaður á starfsmann um 12 millj. kr. er ljóst að fjárveiting hefur farið úr ígildi 33 ráðgjafa í vinnu árið 2009 í einungis 17. Þetta er þvert á þá þróun sem hefur orðið á álagi í atvinnuráðgjöf, þar sem fjöldi vinnustunda hefur stóraukist á síðustu árum, m.a. eftir niðurlagningu NMÍ. Að mati 1. minni hluta er mikilvægt að hluti af því fjármagni sem sparaðist við að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð renni í atvinnuráðgjöf í ljósi þess að landshlutasamtök hafa tekið að sér vinnu sem þar fór áður fram.

09 Almanna- og réttaröryggi.
    Vakin er athygli á því að flöt aðhaldskrafa upp á 2% er lögð á löggæsluna í landinu, til samanburðar við 0,5% aðhaldskröfu á heilbrigðisþjónustu. Hér má aftur merkja skaðleg áhrif af flatri aðhaldskröfu án þess að samhengi hlutanna sé skoðað. Langstærsti kostnaðarliður löggæslu er launakostnaður og lítið svigrúm til almenns aðhalds. Eðlilegra væri að miðað væri við sömu aðhaldskröfu og í heilbrigðisþjónustu ef gripið er til flats aðhalds yfirhöfuð.
Líkt og fjallað er um fyrr í nefndarálitinu kom viðbótarfjármagn inn í málaflokkinn frá ríkisstjórn nú við 2. umræðu. Um 900 millj. kr. er að ræða. Samkvæmt dómsmálaráðuneytinu munu þó strax 400 millj. kr. af þeirri upphæð á næsta ári, eða ígildi 27 stöðugilda, fara í aðhald og því viðbótarfjárveitingin fljót að hverfa. Þessi háa aðhaldskrafa heldur aftur af fyrirsjáanleika hjá lögregluembættum þegar kemur að svigrúmi til ráðninga, þvert á þarfir í málaflokknum. Innbyrðis ósamræmi virðist vera til staðar í málaflokknum, þar sem ríkisstjórnin setur nú 64 millj. kr. í framlag til að fjölga í lögreglunámi á háskólastigi en á sama tíma er mikið aðhald í málaflokknum sem gerir það að verkum að erfitt er að ráða inn í hana.
    Meiri hlutinn fór þá leið að leiðrétta aðhaldskröfu á málaflokkinn að hluta með viðbótarfjármagni. Í framtíðinni væri réttast að breyta aðhaldskröfunni á málaflokkinn, og taka aðhaldskröfur og fyrirkomulag þeirra til gagngerrar endurskoðunar, í stað þess að breyta einstökum fjárveitingum í fjárlaganefnd utan ramma.
    Fyrsti minni hluti fagnar því að brugðist hafi verið við alvarlegum athugasemdum Fangelsismálastofnunar um að aðhaldskröfur undanfarins áratugar hefðu leitt til þess að nú væri engin fita eftir til að skera og stefndi í uppsagnir að öðru óbreyttu. Við meðferð fjárlaga í þetta skiptið var hulunni svipt af stórkostlegri uppsafnaðri innviðaþörf í fangelsum landsins í umsögn Fangelsismálastofnunar. Stöðugur niðurskurður hjá Fangelsismálastofnun í rúmlega áratug hefur leitt til þess að 300 manns eru nú á biðlista eftir afplánun. Allt hefur verið hreinsað inn að beini. Opnum fangelsum er lokað, sem kemur í veg fyrir betrun á tímum afplánunar. Kerfið verður harðgerðara. Betrunarúrræði eru af skornum skammti, skólamálin í ólestri sem og heilbrigðisþjónusta sem fangar eiga rétt á lögum samkvæmt. Öryggi fanga og fangavarða er ógnað í þessum aðstæðum. Peningur er ekki til fyrir stunguvesti varða. Og að öðru óbreyttu stefndi í fækkun um 50 rými í fangelsiskerfinu af 170 um áramótin.
    Fangelsismálastofnun og dómsmálaráðuneytið óskuðu eftir 250 millj. kr. viðbótarfjárveitingu í rekstrargrunninn til að mæta þessu ástandi. Ríkisstjórnin mætti því ákalli og hefur meiri hlutinn í fjárlaganefnd lagt til viðeigandi breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið. 1. minni hluti vekur þó athygli á því að samkvæmt Fangelsismálastofnun er uppsafnaður niðurskurður á grunnheimildir til fangelsismála 280 millj. kr. án verðlagsuppfærslu og stefnir vandinn í 330 millj. kr. á næsta ári ef 50 millj. kr. hagræðingarkrafa gengur eftir.
    Áfram sjáum við afrakstur af flötum niðurskurðar- og aðhaldskröfum ríkisstjórnarinnar á innviði landsins. Hér er því um skammgóðan vermi að ræða og ekkert sem bendir til að það fjármagn sem veitt er til viðbótar í málaflokkinn muni tryggja framtíðarrekstrargrunninn, hvað þá veita svigrúm til fjárfestinga í betri aðstöðu í fangelsum landsins.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
    Fyrsti minni hluti vekur athygli á þeirri ótrúlegu stöðu sem upp er komin við stjórn ríkisfjármála, sem er sú að beita eigi fjárfestingu sem afgangsstærð. Skorið er niður um 10 milljarða kr. í fjárfestingu á milli ára, sem hluta af aðhaldsaðgerð ríkisstjórnarinnar vegna verðbólgu. Nú stefnir í seinkun á framkvæmdum í samgönguáætlun því að kostnaður hefur aukist vegna vendinga á alþjóðasviðinu. Framkvæmdaliðir eru ekki verðbættir í fjárlögum og því stenst samgönguáætlun ekki lengur í núverandi mynd og búist við að nýtt frumvarp komi í vor inn í þingið sem sýnir niðurskurð í samgönguáætlun. Hér er brugðist við kostnaðarhækkunum með öfugum hætti við það sem nútímahagstjórn kveður á um og fjármálaráð hefur lagt áherslu á; að ekki sé litið á fjárfestingar sem afgangslið þegar forgangsraða þurfi í ríkisrekstri.
    Í ofanálag er ljóst að fjármagn sem rennur til viðhalds í samgöngumálum er enn langt undir nauðsynlegri ársþörf. Talið er að viðhaldsskuld í vegakerfinu einu og sér sé nú þegar 60 milljarðar kr. þar til viðbótar. Engin áætlun virðist vera til staðar í innviðaráðuneytinu að vinna á þessari viðhaldsskuld.
    Þá kom fram á fundum nefndarinnar að illa hafi gengið að hrinda samvinnuverkefnum af stað, eða svokölluðum PPP-verkefnum, þar sem tilboð í verkefni hafi verið umfram hugmyndir ráðuneytisins um kostnað verkefnanna. Má nefna brú yfir Hornafjarðarfljót í því samhengi.
    Þá vekur 1. minni hluti athygli á því að samningur ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um eflingu almenningssamgangna frá árinu 2012 gerði ráð fyrir 1.000 millj. kr. árlegum framlögum á föstu verðlagi úr ríkissjóði. Uppsafnaðar vanefndir á þeim samningi nema þó um 1,5 milljörðum kr. Inn í 2. umræðu kemur nú tillaga um viðbótarfjárheimild upp á 385 millj. kr. sem á að vera leiðrétting á samningsbundnum verðbótum. Ljóst er að sú upphæð vinnur ekki upp fyrri skuld samkvæmt samningi. Nú á að framlengja samninginn um 12 ár og mikilvægt að ríkið standi skil á framlagi sínu til verkefnisins að mati 1. minni hluta. Loftslagsáherslur stjórnvalda ættu að leiða til þess að almenningssamgöngur í landinu séu styrktar enn frekar.

15 Orkumál og 17 Umhverfismál.
    Skortur á yfirsýn um fjármögnun loftslagsmála gerir það að verkum að erfitt er að meta áherslur ríkisstjórnarinnar í fjárlögum. Í stjórnarsáttmála má finna uppfært markmið um samdrátt í losun um 55% fyrir árið 2040, sem voru 40% áður. Engar vísbendingar eru þó um að því markmiði fylgi raunverulegur slagkraftur, a.m.k. er hvergi að sjá hvernig fjármögnunin breytist til að fylgja metnaðarfyllra markmiði eftir.
    Þá er ljóst eftir umfjöllun nefndarinnar að fjármagn er ekki til staðar til að mæta markmiðum stjórnvalda um jöfnun á kostnaði við dreifingu á raforku. Þar á jöfnunarhlutfallið að fara úr 78% í 85% á næsta ári, en að mati Orkustofnunar er kostnaðurinn við slíka jöfnun 2,7 milljarðar kr. Núverandi fjárheimild hljóðar upp á 2,3 milljarða kr. Ráðuneytið lagði fram tillögur til fjármálaráðuneytisins um 568 millj. kr. ótímabundið fjárframlag til jöfnunar á dreifingu raforkukostnaðar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023. Þeirri tillögu var hafnað og því ljóst að ekki er fjármagn til staðar til að standa undir yfirlýstu markmiði stjórnvalda um 85% jöfnun á kostnaði við dreifingu á raforku.
    Fyrsti minni hluti bendir á að um stórt réttlætismál er að ræða þegar kemur að grunngæðum hér á landi, að jafnt aðgengi sé að raforku og að kostnaði sé dreift um landið.
    Samkvæmt samtali við ráðuneytið á fundum nefndarinnar stendur til að sameina hina ýmsu sjóði sem sótt hefur verið í til að styrkja verkefni á sviði loftslagsmála, þar á meðal Orkusjóð og Loftslagssjóð. Illa hefur þó gengið að fá yfirsýn yfir hverjar framtíðaráherslur sjóðanna eru og í hvað fjármagnið endanlega nýtist. Í því samhengi bendir 1. minni hluti á að ríkisstjórnin samþykkti breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið inn í 2. umræðu upp á 1 milljarð kr. til kaupa á rafbílum hjá bílaleigum en erfitt er að átta sig á hvort þessari áherslu fylgi sterkari innviðir sem nýtist í slíku átaki. Ljóst er að aðgengi að hleðslustöðvum er stór áhrifavaldur við val fólks á bíl, hvort sem um almenning ræðir eða ferðafólk sem hingað kemur. Færðar eru 550 millj. kr. af málefnasviði 17 Umhverfismál í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til að styrkja Orkusjóð tímabundið en hvergi kemur fram í hvað það fjármagn muni endanlega nýtast.
    Er þetta dæmi um ógagnsæið í nýtingu fjármuna í loftslagsaðgerðum stjórnvalda, en aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er dreifð um stjórnarráðið, m.a. í forsætisráðuneytinu. Í því samhengi vekur 1. minni hluti athygli á þeirri gagnrýni sem hefur komið frá Loftslagsráði um að engin almennileg yfirsýn sé til staðar um það hvernig fjármagn nýtist í loftslagsmálum og nauðsynlegt sé að skipulagið í málaflokknum sé tekið fyrir. Misræmi sé á milli ákvarðana ríkisstjórnarinnar og svo daglegrar útfærslu markmiða sem er í höndum sérfræðinga í ráðuneytinu.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
    Fyrsti minni hluti vill vekja athygli á athugasemdum Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) á niðurskurði í menningarsjóði milli ára. Frumsköpun í listageiranum reiðir sig í miklum mæli á þessa sjóði en einstakir sjóðir eru skornir niður sem nemur á bilinu 5–30% að krónutölu frá árinu 2021 fram á næsta ár. Niðurskurður í tónlistarsjóð, myndlistarsjóð og sviðslistasjóð er sem dæmi um 20%. Þá liggur fyrir að framlög til kvikmyndasjóðs verða skorin niður um 30%, en sjóðurinn styður verulega við bakið á sjálfstæðri íslenskri kvikmyndagerð. Miklu púðri hefur verið varið í að styrkja endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi, en þar er áherslan að langmestu leyti á erlenda framleiðslu sem kemur til landsins. Mikilvægt er að íslensk kvikmyndagerð líði ekki fyrir slíkar áherslur, enda ber ekki aðeins að líta á viðskiptalega hlið greinarinnar heldur menningarlegt gildi hennar.
    Þá liggur nú fyrir að tímabundin fjölgun mánaða í starfslaunasjóði listamanna fellur niður samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og er fjöldinn því aftur kominn í 1.600 mánuði, sem er óbreyttur fjöldi frá 2014. Samkvæmt mati BÍL þyrftu mánuðirnir að vera nær 2.700 ef miða á við vaxandi umfang listgeirans frá árinu 2014. Launin nema nú 490 þús. kr. í verktakagreiðslu og hafa ekki fylgt launaþróun undanfarin ár. Að því sögðu er mikilvægast að stjórnvöld snúi við þeirri ákvörðun að fækka mánuðum í starfslaunasjóðum, enda er sú ákvörðun bundin í lög, en upphæð greiðslnanna getur tekið breytingum samkvæmt reglugerð ef vilji er til að verðbæta verktakagreiðslurnar síðar meir á árinu.
    Auk þess vill 1. minni hluti minnast á stöðu íslenskra bókaútgefenda, en í ljós hefur komið að fjármagn sem veitt var í endurgreiðslur vegna bókaútgáfu kláraðist í september á þessu ári. Fjöldi umsókna hefur nú þegar verið afgreiddur til útgreiðslu sem ekki er fjármagn til. Árið 2020 var 400 millj. kr. fjárheimild í fjárlögum fyrir endurgreiðsluna sem fullnýttist. Árið 2021 var upphæðin lækkuð í 392 millj. kr. og í fyrra var hún 385 millj. kr. Á næsta ári er fjárheimildin 376 millj. kr. Það skýtur skökku við að fyrirkomulag sem var ætlað til að styðja við íslenska bókaútgáfu og menningu fari minnkandi ár frá ári að krónutölu. Ljóst er að þessar fjárheimildir nægja ekki til að mæta þeirri aukinni grósku sem merkja má í íslenskri bókaútgáfu. 1. minni hluti óskaði eftir svörum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um stöðu endurgreiðslnanna en þar kom fram að umfram fjárþörf fyrir yfirstandandi ár væri 89 millj. kr. Leitað hafi verið til fjármála- og efnahagsráðuneytis eftir viðbótarheimild í fjáraukalögum en var henni hafnað. Því óskaði mennta- og menningarmálaráðuneytið eftir að fjárheimild í málaflokkinn verði aukin um 200 millj. kr. á næsta ári miðað við núverandi fjárheimild fyrir árið 2023, til að mæta uppsafnaðri þörf á þessu ári og viðbótarþörf á því næsta. Meiri hluti fjárlaganefndar tók ekki undir þá tillögu.
    Í þessu samhengi vill 1. minni hluti minna á að 4 milljarða kr. viðbótarfjárheimild var bætt við fjáraukalög yfirstandandi árs vegna endurgreiðslna við kvikmyndaframleiðslu hér á landi sem fór langt fram úr heimildum. Að sama skapi komu breytingartillögur inn í 2. umræðu frumvarps til fjárlaga fyrir 2023 frá ríkisstjórn, sem meiri hlutinn í nefndinni samþykkti, þess efnis að 4 milljörðum kr. yrði einnig bætt við fjárveitingar næsta árs. Það vekur því furðu að ekki sé vilji hjá ríkisstjórninni, fjármálaráðuneyti né meiri hlutanum í fjárlaganefnd að koma til móts við 200 millj. kr. þörf í bókaútgáfu sem komið var í svipað endurgreiðsluferli og kvikmyndirnar. Sér í lagi þar sem hið fyrrnefnda styður einvörðungu við íslenska útgáfu.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Í breytingartillögum ríkisstjórnar inn í 2. umræðu, sem meiri hluti nefndarinnar hefur nú gert að sínum, er því stillt upp að um stórátak sé að ræða í heilbrigðismálum vegna 12,2 milljarða kr. viðbótarframlags sem ákveðið var að bæta við málaflokkinn. Mikilvægt er að setja þessa viðbótarupphæð í stærra samhengi: enn er það svo, og verður áfram, að íslensk stjórnvöld leggja lægsta hlutfallið af landsframleiðslu í rekstur heilbrigðiskerfisins samanborið við stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum. Í fámennu og strjálbýlu landi, þar sem rekstrareiningar eru óhagkvæmar, til viðbótar við hátt verðlag, er erfitt að sjá að hægt sé að reka kerfið með hagkvæmari hætti hér en í nágrannalöndunum.
    Niðurbrotið á framangreindum 12 milljörðum sem skilgreint er sem stórsókn af stjórnvöldum í breytingartillögum er eftirfarandi:
    2 milljarðar kr. fara í styrkingu rekstrargrunns Landspítalans. Í því samhengi má benda á að í fyrra fékk Landspítalinn ekkert fjármagn til að mæta svokölluðum reiknuðum raunvexti sem á að mæta náttúrulegri fólksfjölgun og aukinni hjúkrunarþyngd vegna öldrunar þjóðar. Stuðst er við töluna 1,8% í þessu samhengi, sem eru aukin rekstrarframlög sem þarf til þess eins að halda þjónustu óbreyttri; ekki bæta hana eða bæta við verkefnum. Sú tala er reyndar af mörgum talin vanmat og ætti að vera nær 2,5%. Engu að síður fór ekkert slíkt fjármagn til spítalans í fyrra, því fjárhæðin nýttist til að greiða fyrir viðbótarkostnað vegna betri vaktavinnutíma (BVV). Var gatið á rekstri spítalans metið hátt í 2 milljarðar kr. í fyrra vegna þessa. Við bætist að í fjárlagafrumvarpinu sem birtist í haust fyrir næsta ár kom einnig fram að reiknuðum raunvexti fyrir næsta ár hefði ekki verið mætt að fullu, heldur var upphæðin nær 1,4% raunvexti. Styrking til Landspítalans upp á 2 milljarða kr. inn í 2. umræðu er því aðeins til þess fallin að vinna upp fjárskort til að standa undir núverandi verkefnum og þjónustu – fjármagn sem átti að vera til staðar í fjárlagafrumvarpinu til að byrja með.
    Önnur eins upphæð, eða 2 milljarðar kr., fara í viðbót við leyfisskyld lyf sem Landspítalinn afgreiðir. Ljóst var strax í haust að sá kostnaður sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu vegna lyfjanna var í engu samræmi við þörf og sýndi í raun niðurskurð í framlögum til lyfja miðað við raunkostnað á yfirstandandi ári. Hér er því verið að bæta upp kostnað sem átti að koma inn í frumvarpið upphaflega, til að viðhalda grunnaukningu í mannfjölda.
    Svipaða sögu má segja um framlag upp á 2,2 milljarða kr. vegna annars lyfjakostnaðar sem fer í gegnum Sjúkratryggingar. Strax í haust lá fyrir verulegt vanmat í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár á þeim kostnaði sem blasti við miðað við mannfjöldaþróun og hjúkrunarþyngd. Er því verið að mæta því vanmati í þessu samhengi.
    Þá fá Sjúkratryggingar Íslands einnig 700 millj. kr. viðbótarframlag vegna hjálpartækja, en fjárheimildir samkvæmt frumvarpinu voru ekki í samhengi við áætlanir um kostnað SÍ.
Sjúkrahúsið á Akureyri fær 250 millj. kr. til að styrkja rekstrargrunn spítalans. Sjúkrahúsið hafði vakið athygli á því að 500 millj. kr. vantaði upp á grunnfjárveitingu til að viðhalda óbreyttri þjónustu. Líkt og með Landspítalann fékk SAK ekki fjármagn til að mæta reiknuðum raunvexti í fyrra og var rekstrargrunnurinn nú þegar orðinn úreltur.
    Þá er kostnaður vegna COVID metinn á um 1,8 milljarða kr. af viðbótarframlaginu til heilbrigðismála.
    Af stórum liðum stendur þá eftir 2 milljarða kr. framlag til að styrkja heilsugæsluna, en óljóst er í hvað því fjármagni verður varið, en ljóst er að geðheilbrigðisúrræði hafa sem dæmi verið vanfjármögnuð. Og þá voru 750 m. kr. lagðar inn í aðra umræðu til að mæta biðlistum vegna liðskiptaaðgerða.
    Stóra myndin er því sú að það viðbótarframlag sem lagt er til við 2. umræðu og lýst var sem stórátaki við endurreisn heilbrigðiskerfsins felur í grófum dráttum í sér að 75% af framlaginu er nauðsynlegur kostnaður til að viðhalda óbreyttu þjónustustigi og hefði átt að vera í fjárlagafrumvarpinu frá upphafi.
    Þá vill 1. minni hluti vekja athygli á því að hvergi er gert ráð fyrir viðbótarfjárframlagi til að taka á samningsleysi við sérfræðilækna. Komugjöld og greiðslur fyrir aðgerðir hafa hækkað umtalsvert og fellur sá kostnaður nú beint á einstaklinga sem þurfa á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og þjálfun að halda. Öryrkjabandalagið hefur bent á að hingað til hafi almenningur greitt nærri 2 milljarða kr. úr eigin vasa vegna þessa samningsleysis, og blasir nú við að kostnaður almennings verði enn meiri á næstu misserum vegna áframhaldandi kostnaðarhækkana og samningsleysis.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa /25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Til viðbótar við umfjöllun um heilbrigðismál undir málaflokki 23 má nefna að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni vöktu athygli nefndarinnar á undirfjármögnun stofnananna, sér í lagi í tengslum við hjúkrunarheimili sem eru í þeirra umsjá. Launakostnaði, hefur ekki verið mætt í gegnum árin í fjárframlögum, þrátt fyrir að ríkið semji sjálft um slíkar launahækkanir. Ekkert er komið til móts við athugasemdir heilbrigðisstofnananna í breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið.
    Þá er ljóst að endurskoðunar er þörf á samningi heilbrigðisráðuneytisins við SÁÁ sem glímir fyrir fjárskort vegna aukins innlagnarálags og meðferðarúrræða. Úrræðin sem veitt eru hjá SÁÁ falla undir snemmtæka íhlutun sem ætla mætti að væri áherslumál hjá ríkisstjórn sem hefur lagt mikið upp úr því að fjalla um farsæld barna og ungmenna og sparnaðinn sem af snemmtækri íhlutun hlýst. Ljóst er að vanfjármögnun á þjónustu SÁÁ skapar kostnað annars staðar í kerfinu sem bitnar á ríkissjóði síðar meir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar kemur aðeins til móts við fjórðung af neyðarkalli SÁÁ án frekari rökstuðnings.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks / 28 Málefni aldraðra.
    Fyrsti minni hluti fagnar því að til standi að mæta verðlagshækkunum í greiðslum almannatrygginga og að loksins standi til að hækka frítekjumark öryrkja. Að öðru leyti vitnar 1. minni hluti þó til umfjöllunar hér að framan um almenna stefnu stjórnvalda í málaflokkum 27 og 28.

29 Fjölskyldumál.
    Engar breytingar eru gerðar á barnabótakerfinu samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, en barnabætur standa óhreyfðar að krónutölu milli ára og er þar með um raunniðurskurð að ræða milli ára. Athyglisvert er í ljósi umræðu um verðbólgu- og launaþrýsting að ríkisstjórnin hugi ekki að kjarabótum sem tryggja afmarkaðri stuðning við barnafólk, en tilfærslur geta dregið verulega úr launaskriði.

31 Húsnæðisstuðningur / 33 Fjármagnskostnaður.
    Til viðbótar við almenna umræðu 1. minni hluta um stöðuna á húsnæðismarkaði hér að framan er vert að vekja athygli á eftirfarandi: engar nýjar fjárheimildir stendur til að samþykkja í fjárlögum fyrir næsta ár vegna uppbyggingar óhagnaðardrifins húsnæðis. Fjárheimildir yfirstandandi árs voru 3,7 milljarðar kr., og höfðu verið það nokkur ár á undan, en sú upphæð átti að skila um 600 íbúðum á ári. Fjárheimild næsta árs hljóðar upp á 1,7 milljarða kr., en til stendur að færa 2 milljarða kr. af fjárveitingu síðasta árs milli ára, framlög sem voru ónýtt. Fram hefur komið í umsögnum sveitarfélaga og fjölmiðlaumfjöllun að vel gangi í úthlutun lóða og hefur Reykjavíkurborg sem dæmi nefnt að allt að 3.000 lóðir verði byggingarhæfar á næsta ári. Ágætisgangur virðist því vera hjá sveitarfélögunum hvað þetta varðar, en ef þriðjungur af byggingarmagni í Reykjavík á næsta ári færi í óhagnaðardrifnar íbúðir væru það um 1.000 íbúðir. Samt telur innviðaráðherra að nóg sé að flytja ónýttar heimildir milli ára, vera þá alls með 3,7 milljarða kr., sem er sama upphæð og hefur verið til staðar í málaflokknum undanfarin ár. Sú upphæð hefur þó ekki skilað nægu framboði félagslegs húsnæðis, en ráðherra metur nú að hægt verði að byggja 400 íbúðir fyrir fjárheimildirnar. Ljóst er að þessi niðurstaða er langt frá markmiðinu um alls 1.200 óhagnaðardrifnar íbúðir á ári, og í samhengi við lóðaúthlutun höfuðborgarinnar einnar og sér eru ekki rök fyrir svo litlu fjármagni milli ára.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
    Fyrsti minni hluti gerir verulegar athugasemdir við nýtingu almenns varasjóðs við vinnslu málsins í nefndinni. Ríkisstjórnin skilaði af sér ókláruðu fjárlagafrumvarpi í haust og vitnaði ítrekað í umræðunni um fjárlögin í vetur til fjármagns sem sækja mætti í varasjóð. Var þetta til þess að draga úr gagnsæi í umræðunni um raunverulegar fjárheimildir. Fjárlaganefnd bárust svo þau skilaboð eftir að breytingartillögur ríkisstjórnar inn í 2. umræðu lágu fyrir að möguleiki væri á því að 1,7 milljarða kr. væri að finna í almennum varasjóði til að mæta tillögum frá starfshópi sem skoðar húsnæðisstuðning til einstaklinga. Útfærslan og endanlegar tillögur lágu ekki fyrir við 2. umræðu en ýjað er að því að endanlegar tillögur gætu komið inn í frumvarpið fyrir endanlega samþykkt þess.
    Vinnulagið við gerð fjárlaga endurspeglar stefnuleysi stjórnvalda í stórum málaflokkum, enda ætti að vera vilji hjá ríkisstjórn að leiða mótun velferðarkerfisins með því að mæta með fullmótaðar tillögur í fjárlagafrumvarpinu, frekar en að bíða eftir niðurstöðum kjarasamninga eða einstakra nefnda til að eyrnamerkja fjárheimildir til eðlilegra úrræða í velferðarríki. Ljóst er að húsnæðisstuðningur er verulega vanfjármagnaður á Íslandi, hvort sem um ræðir húsnæðisbætur til leigjenda eða vaxtabætur.

Alþingi, 5. desember 2022.

Kristrún Frostadóttir.